Eldstöðvar á Austurlandi

Álftafjarðareldstöðin

Hjörleifur Guttormsson skrifar í Árbók Ferðafélagsins 2002, bls.17, um Álftafjarðareldstöðina:

“Á Suð­aust­ur­landi er safn þeirra þátta, sem skap­að hafa Ís­land, sýni­legra en víð­ast hvar ann­ars stað­ar á land­inu. Þessu valda óvenju­mikl­ir rof­kraft­ar sem í tím­ans rás hafa skófl­að mikl­um hluta eldri jarð­laga burt og rist þau yngri sund­ur og mynd­að ótal dali og gljúf­ur, þannig að auð­velt er að lesa í berg­ið. Land hef­ur að sama skapi ris­ið frá upp­haf­legri stöðu og op­in­ber­ast þannig á yf­ir­borði mikl­ar djúp­bergs­mynd­an­ir, gabbró, granófýr og jafn­vel granít í Lóni og víð­ar. Talið er að djúp­berg­ið í horn­un­um við Lón hafi orð­ið til á 1–2 km dýpi und­ir yf­ir­borði fyr­ir 6–7 milj­ón­um ára í rót­um meg­in­eld­stöðva af sömu gerð og Ör­æfa­jök­ull. Hafa þær að öðru leyti veðr­ast og rofn­að burt að mestu. Jarð­lög við sjáv­ar­mál í Álfta­firði og Ham­ars­firði eru tal­in vera nálægt 10 milj­ón ára göm­ul en innst í döl­um um 6 milj­ón ára. Elstu jarð­lög­in í þess­um lands­hluta eru hins veg­ar aust­ar, allt að 13 milj­ón ára í Gerpi, en yngri eft­ir því sem vest­ar dreg­ur nær gos­belt­inu.

Á Aust­fjörð­um er að finna leif­ar margra fornra eld­fjalla, sem enski jarð­fræð­ing­ur­inn Wal­ker varð fyrst­ur til að rann­saka með nem­end­um sín­um og kall­aði meg­in­eld­stöðv­ar (central volcanoes), sam­kynja þeim sem nú eru að verki í virk­um gos­belt­um lands­ins. (Walker: Geology of the Reydar­fjör­d­ur area. Aust­fjarða­fjöll, s. 25–31. Við ræt­ur Vatna­jök­uls, s. 211–216. Jarð­fræði­kort af Ís­landi; Högg­un)Álfta­fjarð­ar­eld­stöð var virk fyr­ir um 10 milj­ón­um ára og er yngri en Barðs­nes­eld­stöð og fleiri meg­in­eld­stöðv­ar sem merki sjást um aust­ar á fjörð­um. Eins og flest­ar meg­in­eld­stöðv­ar hef­ur Álfta­fjarð­ar­eld­stöð ekki að­eins skil­að af sér basalti held­ur einnig ísúr­um og súr­um berg­gerð­um í formi and­esíts og líp­ar­íts. Verð­ur þeirra víða vart við strönd Álfta­fjarð­ar og í eyj­um á firð­in­um á svæði þar sem stór askja mynd­að­ist í eld­stöð­inni. Ríku­leg­ust eru líp­ar­ít­lög­in við sunn­an­verð­an fjörð­inn, ekki síst í landi þvott­ár, en líp­ar­ít er einnig að finna við strönd­ina norð­an fjarð­ar í Blábjörg­um og landi Mel­rakka­ness.

Mæli­fell hef­ur orð­ið til í lít­illi öskju um 2 km í þver­mál við suð­ur­mörk að­al­öskju Álfta­fjarð­ar­eld­stöðv­ar og hef­ur hún fyllst af súr­um gos­mynd­un­um og inn­skot­um. Leif­ar af basalt- og and­esít­hraun­lög­um frá Álfta­fjarð­ar­eld­stöð er með­al ann­ars að finna í Vík­ur­fjalli í Lóni og hall­ar þeim bratt til suð­vest­urs. Eld­stöð­in gæti hafa ver­ið virk í um 500 þús­und ár en að því búnu biðu henn­ar sömu ör­lög og stall­systra henn­ar – að kaf­fær­ast und­ir basalt­hraun­um sem runnu frá gossprung­um nær og fjær. Gang­a­rein­ar út frá Álfta­fjarð­ar­eld­stöð er að finna langt til norð­aust­urs, m. a. við Djúpa­vog og á Beru­fjarð­ar­strönd. (Bla­ke: Geology of Alfta­fjord­ur vol­cano. Helgi Torfa­son: In­vestigations into the struct­ure of south-eastern Iceland.)”

-----------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Barðsneseldstöðin

Hjörleifur Guttormsson skrifar í Árbók Ferðafélagsins 2005, bl.89, um Barðsneseldstöðina:
Súrar bergmyndanir setja svip sinn á austurhlið skagans norðan Sandvíkur og rísa hærra eftir því sem nær dregur Barðsneshorni. Þetta eru leifar eldstöðvar sem nú er að mestu leyti eydd og horfin í sæ austur af Barðsnesi en hefur verið allmikil um sig í árdaga þegar hún var virk fyrir um 13 miljónum ára. Hugsanlegt er að súrar bergmyndanir í Skrúð og í Skálanesbjargi norður af Dalatanga séu einnig frá henni komnar. Grunnur Barðsneseldstöðvar er undir sjávarmáli og það sem við sjáum eru vesturhlíðar eldfjallsins með talsverðum staðbundnum halla. Neðstu hraunlögin í Gerpi eru litlu eldri og liggja aðeins neðar í hraunlagastaflanum en ísúrt andesíthraun við sjávarmál á Mónesi. Yfir það síðarnefnda hefur runnið líparíthraun 20–30 m þykkt með grænleitum glerungi efst. Ofan á því í átt að Barðsneshorni er þykk lagskipt gjóska með hnullungum allt að tvö fet í þvermál svo og súrt móberg. Í gjóskunni er um 10 cm þykkt kolalag og niðri undir sjávarmáli rétt austan við Horn gefur að líta nokkra kolaða trjástofna í uppréttri stöðu í gjóskunni. Þetta eru elstu þekktu gróðurleifar austanlands, ekki ósvipaðar þeim sem finnast í elsta bergi á Vestfjörðum. Móbergslög með plöntuleifum er líka að finna neðarlega í Gerpi. Ofan á gjóskunni sunnan við Barðsneshorn eru tvö eða fleiri súr hraunlög á annað hundrað metrar á þykkt og vestan á nesinu hefur um 70 m þykkt straumlögótt líparíthraun lagt til Rauðubjörg sem lífga upp á umhverfið með skærum litbrigðum. Á hraunlagamótum finnst þar grænn biksteinn og baggalútar með glerhalli í miðju og sjálft bergið veðrast í þunnar flögur.

Um það leyti sem eldgosum lauk við Barðsnes hafa blágrýtishraun sem innihalda mikið af zeólítum runnið frá gossprungum upp að hlíðum eldfjallsins. Ofan á þeim liggur súrt gjóskulag sem kennt er við Barðatanga rétt innan við bæ á Stuðlum. Er gjóskan þar um 30 m á þykkt og með plöntuleifum og kísilrunnum trjábútum. Gjóskulag þetta finnst í norðausturöxl Sandfells, undir Hádegistindum suður af Sandvík og í Gerpi, og fer þaðan lækkandi allt suður undir Vöðlavík. Hugsanlega var gosið sem lagði það til hinsta kveðja frá Barðsneseldstöð.

-----------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Breiðdalseldstöðin

Hjörleifur Guttormsson skrifar í Árbók Ferðafélagsisns 2002 bls.148, um Breiðdalseldstöðina:

“Á ferð um inn­an­verð­an Beru­fjörð og Breið­dal kom­ast menn ekki hjá því að veita at­hygli ljós­um og marg­lit­um líp­ar­ít­mynd­un­um og stór­kost­leg­um tind­um sem standa á fjalls­rim­an­um. Að­al­tind­arn­ir eru 5 tals­ins og sjást langt að, blasa m. a. við frá Djúpa­vogi. Njóta þeir sín vel báð­um meg­in frá, þó mis­mun­andi eft­ir birtu og sjón­ar­horni. Lita­dýrð­in við inn­an­verð­an Suð­ur­dal í Breið­dal, eink­um í suð­ur­hlíð­um, ber, ásamt mik­illi óreglu í berg­lög­um og þykk­um gjósku­mynd­un­um, vott um að hér sé kom­ið á slóð­ir meg­in­eld­stöðv­ar. Rann­sókn­ir enska jarð­fræð­ings­ins Wal­kers á Aust­ur­landi 1955–1965 beindust með­al ann­ars að þess­ari eld­stöð, sem var sú fyrsta sem hann lýsti, og gera þær okk­ur kleift að segja sögu henn­ar í að­al­at­rið­um (The Breiddal­ur central volcano, 1963).

Greini­leg um­merki Breið­dal­seld­stöðv­ar hafa ver­ið rak­in frá hlíð­um Fossár­fells sunn­an Beru­fjarð­ar norð­ur í Bæj­art­ind upp af Þor­gríms­stöð­um í Breið­dal. Vest­ur­mörk henn­ar liggja hallandi til vest­urs und­ir Ófæru­dalsnöf­um, og hef­ur hin forna suð­vest­ur­hlíð eld­fjalls­ins af­hjúp­ast norð­vest­ur af botni Beru­fjarð­ar. Innri mörk eld­stöðv­ar­inn­ar eru nálægt því sem Selá kem­ur nið­ur hlíð­ina og hverfa jarð­mynd­an­ir frá henni und­ir Kjal­fjalls­brún­ir. Aust­ur­hluti Breið­dal­seld­stöðv­ar hef­ur eyðst að mestu en slóð henn­ar verð­ur þó rak­in aust­ur und­ir Grjót­hólatind.Suð­ur­dal­ur Breið­dals hef­ur graf­ist nið­ur í miðju eld­stöðv­ar­inn­ar og gegn­um vest­ur­hluta henn­ar. Leif­ar af hátindi eld­fjalls­ins er nú að finna á svæð­inu frá Beru­fjarð­ar­t­indi vest­ur í Mat­ar­hnjúka. Markast þær af geysi­þykku líp­ar­ít­hrauni en vest­ar í Ófæru­dalsnöf­um tek­ur við þykk syrpa af basalt­hraun­um sem á sín­um tíma runnu yfir þessa kuln­uðu eld­stöð. Und­ir mið­biki henn­ar virð­ist hafa ver­ið kviku­þró, en hvergi er þó djúp­berg sjáan­legt á yf­ir­borði þótt vott­ur þess finn­ist í brota­bergs­lög­um. Geysi­leg hitaum­mynd­un hef­ur orð­ið á berg­inu yfir eld­stöðv­ar­miðj­unni, að lík­ind­um út frá kviku­þró, og basalt og and­esít hef­ur þar tek­ið á sig ljós­græn­an lit og er ill­grein­an­legt frá líp­ar­íti með ber­um aug­um. Kem­ur þessi mynd­breyt­ing bergs­ins einna best fram við Innri-Ljósá og Blágil í suð­ur­hlíð­um Breið­dals, en henni fylg­ir jafn­framt ein­kenn­andi dreif­ing holu­fyll­inga og stein­teg­unda í sam­miðja lög­um út frá kviku­þrónni sem hita­gjafa. Hluti af miðju eld­fjalls­ins hef­ur sig­ið nið­ur um allt að 600 metra og þannig um tíma mynd­ast askja með stöðu­vatni. þeg­ar hraun svo runnu út í vatn­ið urðu til bólstr­ar og brota­berg, sem sjá má í Beru­fjarð­ar­t­indi og rim­an­um vest­an Beru­fjarð­ar­skarðs.

Hnjúka­röð­in Flögu­tind­ur, Smátind­ur (Smátinda­fjall), Röndólf­ur, Slött­ur og loks Stöng upp af Skála í Berufirði hef­ur orð­ið til síðla í sögu eld­fjalls­ins er líp­ar­ít­hraun rudd­ust upp um gos­rás­ir og mynd­uðu þykka gúla ofan á súr­um gjósku­lög­um gíg­bar­manna. Óskipt­ir líp­ar­ít­hamr­arn­ir sem varð­veist hafa sem leif­ar þess­ara hraun­gúla eru óvið­jafn­an­leg­ar mynd­an­ir. Víða má kom­ast að þeim, bæði frá Beru­fjarð­ar­strönd og úr Breið­dal.

Talið er að Breið­dal­seld­stöð hafi ver­ið upp á sitt besta fyr­ir um 8–9 milj­ón­um ára um það leyti sem Álfta­fjarð­ar­eld­stöð var tek­in að kulna. Hins veg­ar er eld­stöð­in sem kennd er við Reyð­ar­fjörð tals­vert eldri, eins og kom­ið verð­ur að síð­ar. Vit­neskja um inn­byrð­is ald­ur slíkra eld­stöðva fæst m. a. með því að rekja auð­þekkj­an­leg­ar hraun­laga­syrp­ur eða ein­stök berg­lög í fjalls­hlíð­um og skoða af­stöðu þeirra inn­byrð­is. Þar koma súr gjósku­lög (túff) mik­ið við sögu, en þau hafa oft borist um lang­an veg út frá meg­in­eld­stöðv­um og skera sig vel frá basalt­inu. Eitt slíkt ljóst og geysi­þykkt gjósku­lag er kennt við fjallið Skessu suður af botni Reyðarfjarðar en er talið eiga uppruna sinn í Breiðdalseldstöð á fyrstu stigum hennar.”

-----------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Reyðarfjarðareldstöðin

Hjörleifur Guttormsson skrifar í Árbók Ferðafélagsisns 2002, bls.253, um Reyðarfjarðareldstöðina:
“Reyð­ar­fjarð­ar­eld­stöð kall­ast mik­ið spor­öskju­laga meg­in­eld­stöðv­ar­kerfi sem menj­ar eru um í Aust­fjarða­blágrýt­inu þvert á firð­ina frá Stöðv­ar­firði í suðri norð­ur í Odds­dal inn af Norð­firði. Leif­ar henn­ar eru eng­an veg­inn eins ris­mikl­ar og háreist­ar og nöfnu henn­ar yngri sem kennd er við Breið­dal. Senni­lega hef­ur hún aldrei gnæft sem veru­legt eld­varp yfir um­hverfi sitt. Eld­stöð­in hef­ur gos­ið með hléum og af mis­jöfn­um krafti inn­an þessa svæð­is og inn á milli finn­ast hraun­laga­syrp­ur sem kennd­ar eru við Kum­la­fell og Örn­ólfs­fjall og runn­ið hafa frá sprungu­gos­um. Um menj­ar eld­stöðv­ar­inn­ar við sunn­an­verð­an Reyð­ar­fjörð er fjall­að síð­ar (s. 291).

Þeg­ar Reyð­ar­fjarð­ar­eld­stöð hafði runn­ið skeið sitt til hálfs gerð­ust stór­merki mik­il á svæði við sunn­an­verð­an Fáskrúðs­fjörð þar sem nú er hlíð­in upp af Vík­ur­gerði. Blágrýt­islög­in sem þar hvíldu nær lárétt í tig­inni ró tóku skyndi­lega að rísa og rifna með braki og feikn­leg­um brest­um uns þau stóðu nær upp á rönd og land­ið hafði lyfst um mörg hund­ruð metra á stóru svæði. Eng­in vitni voru að þess­um at­burði utan kannski felmtri slegn­ir mófugl­ar því að þetta gerð­ist fyr­ir 11–12 millj­ón­um ára. Nú hafa basalt­lög­in veðr­ast að mestu utan af söku­dólgn­um sem olli ?ess­um fyr­ir­gangi og þeir sem um fjörð­inn fara geta dáðst að Sand­felli sem gnæf­ir í 743 m hæð sunn­an fjarð­ar. Er fellið talið eitt besta sýn­is­horn bergeitils frá ter­tíer­tíma á norð­ur­hveli. Nær sporð­reist basalt­lög­in í Smátind­um sem leggj­ast upp að sunn­an­verðu fell­inu bera enn vitni um hvað hér gerð­ist. Litlu sunn­ar tengj­ast þau lárétt­um lög­um sem liggja fyr­ir botni Fleins­dals og Sand­fells­dals. Heild­ar­?ykkt bergeitils­ins er tal­in vera um 600 metr­ar og lík­legt að hann hafi brot­ist upp í blágrýt­is­þekju sem var yfir 500 m á þykkt.Und­ir lok gos­virkni í Reyð­ar­fjarð­ar­eld­stöð brut­ust súr og basísk hraun sam­tím­is upp um tvær sam­síða sprung­ur beggja vegna Fáskrúðs­fjarð­ar og skildu eft­ir sig áber­andi jarð­mynd­an­ir. Sunn­an fjarð­ar blasa þær við í Ketti og Gráfelli aust­an við Stöðv­ar­skarð en að norð­an­verðu sjáum við um­merki þeirra efst á Kapp­eyr­ar­múla og í Ljósa­fjalli við Gils­ár­dal. Í norð­ur­hlíð­um dals­ins blas­ir við þver­snið af sjálfri gosrásinni. (heimildir: Geology of the Fáskrúðsfjörður area, eftir Gibson. Austfjarðarfjöll s.124-127)”

-----------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Jarðfræði Mjóafjarðar

Hjörleifur Guttormsson skrifar í Árbók Ferðafélagsins 2005, bls. 150, um jarðfræði Mjóafjarðar:

„Á árunum 1989–1993 unnu íslenskir jarðfræðingar að rannsóknum á hraunlagastafla Mjóafjarðar og báru niðurstöður sínar saman við rannsóknir Walkers og fleiri breskra jarðfræðinga sunnan Norðfjarðar. Tókst þeim að tengja einkennandi hraunlagasyrpur í Mjóa­firði við samsvarandi jarðlög í fjöllunum milli Reyðarfjarðar og Norðfjarðar og athuganir þeirra náðu einnig norður í Seyðisfjörð. Jarðfræði Mjóafjarðar er að því leyti einfaldari en sunnar og norðar að enga megineldstöð er að finna við fjörðinn en austur af við Dalatanga koma fram súr jarðlög með líparítmyndunum sem taldar eru ættaðar frá Barðsneseldstöð. Miðja þessarar fornu eldstöðvar gæti hafa verið um 10 km austur af Dalatanga þar sem nú er reginhaf. Vegna fjarlægðar frá eldstöðvum er hitaummyndun minni í bergi við Mjóafjörð en víða annars staðar í austfirska blágrýtinu og ekki að vænta sérstakrar fjölbreytni í holufyllingum.

Berggangar sjást víða en þéttleiki þeirra er mestur á tveimur svæðum, annars vegar á rein utanvert við fjörðinn nálægt Eldleysu og á samsvarandi svæði sunnan fjarðar, hins vegar inn af fjarðarbotni. Eystri reinin liggur að líkindum norður úr Reyðarfjarðareldstöð en sú í fjarðarbotni tengist sennilega Breiðdalseldstöð. Jarðlagahalli er sem víðar suðvestlægur, þ. e. hraunlögum hallar inn til landsins, og í Mjóafirði fer hallinn vaxandi frá um 5° við sjávarmál á Dalatanga í um 9° inni undir Mjóafjarðarheiði, öfugt við það sem almennt gerist, t. d. í Seyðisfirði. Skýringin gæti verið jarðlagafarg frá afurðum Þingmúlaeldstöðvar sem á sínum tíma var virk ekki langt suðvestur af.Jarðlagastaflinn við Mjóafjörð er gerður af um þriggja km þykkri „lagköku“ ef allt væri sett í lárétta stöðu, hraunin runnin frá gossprungum á um þremur miljónum ára, austurkanturinn elstur eða rétt um 13 miljón ára gamall við sjávar­mál á Dalatanga, vestasti hlutinn í hnjúkum inn af fjarðarbotni kominn úr iðrum jarðar fyrir um 10 miljónum ára.

Surtarbrandslögin í Gagnheiðarhnjúk og Slenjufelli eru líklega leifar sams konar skóga og gáfu af sér surtarbrand ofarlega í Hólmatindi og Jökulbotnum sunnan Reyðarfjarðar. Þannig má rekja og tengja saman jarðlögin austanlands. Þykk og aðgreind setlög eru t. d. ofan við 200 m hæð í báðum Hvítárgiljum inn af fjarðarbotni og þeim má fylgja út og upp norðurhlíðar þar sem þau birtast milli hamrabelta ofarlega við Hesteyrardali og efst í Tóarfjalli, en einnig víða norðan Seyðisfjarðar.

(Helsta heimild: Leó Kristjánsson, Ágúst Guðmundsson og Hreinn Haraldsson: Stratigraphy and paleomagnetism of a 3-km-thick Miocene lava pile in the Mjoifjordur area, eastern Iceland. Geol. Rundschau 84, s. 813–830)“

Opið hús var í Borkjarnasafni Náttúrufræðistofnunar Íslands (NÍ) á Breiðdalsvík föstudaginn 19. maí. Viðburðurinn var samstarfsverkefni á milli NÍ og Breiðdalsseturs. Fjöldi gesta kom og skoðaði hversu vel hefur tekist til með þessa uppbyggingu sem hófst á árinu 2015. Myndirnar segja meira en mörg orð, en gamla sláturhúsið hefur fengið nýtt hlutverk sem glaðst var yfir í dag.

Starfsmenn safnsins voru allir þarna. Þeir eru dr. Birgir Óskarsson jarðfræðingur, sem hefur yfirumsjón með safninu fyrir hönd NÍ, Martin Gasser, jarðfræðingur í borkjarnasafninu og Breiðdalssetri og síðast en ekki síst Hrafnkell Hannesson sem hefur starfað við safnið frá upphafi sem tæknimaður.

Sérstaklega ánægalegt var að geta sýnt einn frægasta borkjarna Íslands, IRDP-karni (Iceland Research Drilling Project) sem fékkst við djúpborun (1919 m) sem fram fór á árinu 1978 á Reyðarfirði. Kjarninn hefur alla tíð verið geymdur á Reyðarfirði og var loksins fluttur á endastöð til Breiðdalsvíkur nú í byrjun maí. Glímufélagið á Reyðarfirði bar kassana upp úr kjallara Stríðsárasafnsins, þar sem ekki var hægt að komast að þeim með lyftara. Þeim eru færðar kærar þakkir fyrir hjálpina. Einnig er fulltrúum Fjarðabyggðar þakkaður stuðningurinn með því að senda þessa borkjarna í safnið. Hægt er að lesa meira um borunina í Reyðarfirði hér.

Heiðursgestur var Jóhann Helgason, jarðfræðingur við Landmælingar Íslands sem vann með áðurnefnda IRDP-kjarna á sínum tíma.

19 5 17 gestir jfr

Aðilar sem komu að uppsetningu borkjarnasafnsins

19 5 17

Starfsmenn NÍ og Breiðdalsseturs ásamt heiðursgesti Jóhanni Helgasyni

heimamenn hh

Heimamenn að skoða borkjarnasafnið

borkjarnasafn opi hus 19 5 17hh a

Jarðfræðingar að skoða IRDP kjarnann