Skip to main content

Breiðdalssetur: Stefna og starfsemi

GamlaKaupfe

Breiðdalssetur er umgjörð um þá starfsemi sem verið er að þróa í Gamla kaupfélagshúsinu á Breiðdalsvík. Gamla kaupfélagið, sem er elsta húsið á Breiðdalsvík reist árið 1906, hefur verið í endurbyggingu sl. ár. Húsinu er ætlað að vera miðstöð menningar, sögu og þekkingar í víðum skilningi. Þar verða þrjár megin stoðir lagðar til grundvallar: jarðfræði, byggð  á verkum breska jarðfræðingsins dr. George P.L. Walkers, málvísindi, þar  sem horft  verður til Breiðdælingsins dr. Stefáns Einarssonar og þar að auki saga hússins, þorpsins og byggðarlagsins. Stefnt er að því að byggja upp aðstöðu og taka á móti erlendum og  innlendum nemendum  í greinum sem tengjast starfseminni auk ferðamanna.

Haustið 2008 var fyrsti hluti setursins, Jarðfræðisetur á Breiðdalsvík, opnað í Gamla kaupfélagshúsinu. En þá tók setrið á móti gögnum breska jarðfræðingsins George P. L. Walker. Gögn Walkers eru ómetanlegar heimildir og frumgögn um rannsóknir hans á hinum Austfirska jarðlagastafla, svo sem minnisbækur, skýrslur, teikningar, myndir, kort og margt fleira.

Hugmyndafræði

Hugmyndin að jarðfræðisetrinu á Breiðdaslvík kviknaði upprunalega hjá Ómari Bjarka Smárasyni, jarðfræðingi, sem var áhugamaður um að opnað yrði minjasafn um læriföður hans og prófessor, Dr. George Patrick Leonard Walker. Dr. Walker starfaði á Austurlandi á árunum 1954-1965 og kortlagði á þeim árum stóran hluta austfirska jarðalagastaflans. Markmiðið var frá upphafi að gera almenningi og fræðimönnum kleift að "feta í fótspor Walkers" með því að læra um rannsóknir hans og kenningar um leið og mögulegt væri að skoða það svæði sem Dr. Walker rannsakaði. Haft var eftir Dr. Walker sjálfum að Ísland hefði kennt honum jarðfræði og því sjáflsagt að gera öðrum kleift að læra af honum.

Breiðdælingar tóku vel í hugmyndir um uppsetningu jarðfræðiseturs og ákveðið var að hefjast handa við að koma því upp í Gamla kaupfélaginu á Breiðdalsvík. Fyrsta skrefið í löngu ferli er að koma upp því minjasafni sem nú má sjá en einnig er unnið að því jöfnum höndum að byggja upp víðtækt tengslanet vísinda- og fræðimanna sem hafa hug á að koma með nemendur sína til Austurlands til að rannsaka svæðið.

Stefna

Jarðfræðisetrið á Breiðdalsvík er upplýsingaveita og fræðslusetur íslenskrar jarðfræði. Setrið er miðstöð rannsókna og fræðimennsku í jarðfræði og byggir á arfleifð Dr. George Walker.

Stefnumótunarvinna jarðfræðisetursins tekur mið af hugmyndum aðstandenda um möguleika til framtíðar. Í henni birtist mikill metnaður um framtíð jarðfræði á Íslandi sem og möguleika innlendra og erlendra aðila á að læra um hana og tileinka sér á mismunandi stigum eftir áhuga og skilningi hvers og eins.

Mikil áhersla er lögð á samstarf og samvinnu þeirra aðila sem eru að, og munu í framtíðinni, stunda jarðfræðitengdar rannsóknir eða bjóða upp á jarðfræðitengda afþreyingu. Ísland er óþrjótandi uppspretta rannsóknarefna, og upplifunar. Því er mikilvægt að aðgengi og markaðssetning sé samhæfð og samstíga, innanlands og utan.

Starfsemi

Að setrinu standa auk Breiðdalsseturs ses - Breiðdalshreppur, Jarðfræðistofan Stapi og Þróunarfélag Austurlands með stuðningi ýmissa aðila innan fjórðungs og utan. Uppsetning setursins og opnun árið 2008 var styrkt af Vaxtarsamningi Austurlands, Menningarráði Austurlands, Íslenska ríkinu og fleiri aðilum.

Starfsemi jarðfræðisetursins er margþætt:

  • Minjasafn með munum Dr. Walkers
  • Samvinna við rannsóknaraðila innanland og utan
  • Stuðningur við rannsóknir tengdar Austurlandi
  • Miðlun upplýsinga um jarðfræði sem og ævi og störf Dr. Walkers til ferðamanna, fræðimanna og almennings
  • Samvinna við ferðaþjónustuaðila og handverksfólk í nærumhverfi

Það er von aðstandenda Breiðdalsseturs að tilurð setursins verði jarðfræðivísindum til framdráttar hérlendis og að minningu Dr. Walkers verði sómi sýndur með starfsemi þess

  • Created on .
  • Hits: 2077