Smári Ólason er látinn.
Þær sorgarfréttir bárust nýlega, að Smári Ólason fyrrverandi stjórnarmaður í Breiðdalssetri væri fallinn frá eftir stutt en erfið veikindi. Smári og kona hans Ingibjörg Styrgerður Haraldsdóttir voru meðal stofnenda Breiðdalsseturs ses í byrjun árs 2011. Eitt af meginverkefnum Breiðdalsseturs er að heiðra minningu dr. Stefáns Einarssonar frá Höskuldsstöðum í Breiðdal og framlag hans til málvísinda og örnefnasöfnunar. Stefán er m.a. annar aðalhöfundur Breiðdælu, drögum til sögu Breiðdals, merku riti sem kom út 1948.
Þau hjón Smári og Ingibjörg Styrgerður komu fram fyrir hönd afkomenda Ingibjargar Árnadóttur, seinni konu dr. Stefáns Einarssonar en Stefán eignaðist ekki afkomendur. Þau Ingibjörg Styrgerður og Smári lögðu fram til safnsins arfleifð dr. Stefáns og er hún varðveitt í Breiðdalssetri. Höfðinglegt framlag þeirra hjóna verður seint fullþakkað og sömu leiðis var stjórnarseta Smára í Breiðdalssetri starfseminni mikilvæg.
Um leið og framlag og stjórnarseta Smára er þökkuð sendir stjórn Breiðdalsseturs Ingibjörgu Styrgerði innilegar samúðarkveðjur og heitir því og leggur áherslu á að sýna minnigu dr. Stefáns Einarssonar þá virðingu sem honum ber. Breiðdælingar eru sammála um að dr. Stefán Einarsson sé einn merkasti Breiðdælingur á síðustu öld en hann fæddist árið 1897 og framlag hans til heimasveitar sinnar og íslenskrar menningar er ómetanlegt.
- Created on .
- Hits: 2264