Skip to main content

Menningarverðlaun SSA 2018 til Breiðdalsseturs!

Menningarver laun SSA 2018IMG 0670

Menningarverðlaun Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) fyrir árið 2018 voru veitt á aðalfundi SSA 7. september 2018. Það var Breiðdalssetur sem hlaut verðlaunin að þessu sinni. Verðlaunin voru veitt Breiðdalssetri fyrir að auka aðgengi almennings að þekkingu og menningu fyrri tíma.

Það var Sigrúin Blöndal, fráfarandi formaður SSA sem afhenti Hákoni Hanssyni formanni stjórnar Breiðdalsseturs verðlaunin og sagði m.a. eftirfarandi í ávarpi sínu:

Breiðdalssetur var formlega stofnað 2010 og er því aðeins 8 ára gömul stofnun. Setrið byggir á þremur grunnstoðum; jarðfræði, málvísindum og sögu en þó er aðaláhersla lögð á jarðfræði en setrið   varðveitir arfleifð breska jarðfræðingsins George Walker,  eins frægasta eldfjallafræðings heims á 20. öldinni. Walker rannsakaði austfirska jarðlagastaflann í 10 sumur á árunum 1955-1965 með höfuðáherslu á Breiðdalseldstöð.  Frá upphafi hefur safnið líka verið helgað minningu dr. Stefáns Einarssonar málvísindamanns. Breiðdalssetur er staðsett í gamla kaupfélagshúsinu á Breiðdalsvík sem hefur verið gert upp og er afskaplega fallegt.

Í Breiðdalssetri eru sýningar og haldin hafa verið málþing, auk þess sem ýmsir menningarviðburðir hafa dregið að sér fjölda gesta.

Það er mikils virði fyrir hvaða samfélag sem er, hvort sem er lítið eða stórt, að þar þrífist menningar- og fræðslustarfsemi. Breiðdalssetur er gott dæmi um slíkt framtak þar sem byggt er utan um það sem fyrir er og fyrir dugnað og áhuga heimamanna og bakhjarla hefur starfsemin vaxið og dafnað með árunum.

Ég vil biðja Hákon Hansson, formann stjórnar Breiðdalsseturs að taka við viðurkenningarskjali og ávísun upp á 250 þúsund.

Hákon tók við viðurkenningunni og þakkaði heiðurinn sem starfseminni er sýndur með þessum verðlaunum.  Hákon sagði í ávarpi sínu að frá upphafi hefði stjórn og starfsfólk Breiðdalsseturs unnið  af mikilli elju við uppbyggingu Breiðdalsseturs og þakkaði sérstaklega jarðfræðingunum Christu Mariu Feucht og Martin Gasser fyrir ómetanlegt framlag í þau  5 ár sem þau störfuðu við Breiðdalssetur.

Forsvarsmenn Breiðdalsseturs vinna nú að frekari uppbyggingu og er vonast til að hægt verði að greina frá frekari uppbyggingu á næstu mánuðum.

  • Created on .
  • Hits: 999