Breiðdalssetur með ÞNA á Vísindavöku Rannís
Breiðdalssetur og Þekkingarnet Austurlands fóru saman á Vísindavöku síðastliðinn föstudag 23. september með sýninguna jarðfræði, málvísindi og saga. Erla Dóra Vogler fór fyrir hönd Breiðdalsseturs en Guðrún Áslaug Jónsdóttir fyrir hönd ÞNA.
Vísindavakan er árlegur viðburður þar sem almenningi gefst kostur á að hitta vísindamenn sem stunda rannsóknir í hinum ýmsu vísindagreinum og kynnast viðfangsefnum þeirra. Öll fjölskyldan finnur eitthvað við sitt hæfi á Vísindavöku, en hún er haldin samtímis um alla Evrópu á Degi evrópska vísindamannsins, sem er síðasta föstudag í september. RANNÍS stendur fyrir Vísindavöku á Íslandi.
Mætt var til leiks á föstudagsmorguninn og hafist handa við að setja upp sýningar í fjöldamörgum básum í Háskólabíói. Þar var mikið líf og fjör, enda ótrúlega margir hópar sem tóku þátt með hin ýmsustu rannsóknar- og fræðsluefni. Vísindavakan sjálf opnaði svo kl. 17 og stóð til kl. 22 um kvöldið. Á hana kom fólk á öllum aldri og mikið af fjölskyldufólki. Gert hafði verið ráð fyrir þessu við uppsetningu sýningarbásanna og flestir höfðu nóg af hlutum sem voru skemmtilegir fyrir augun, heilann, sem hægt var að snerta, smakka, mæla osfrv. Fjölbreytnin var alveg ótrúleg - allt frá básum um japönsku til tilrauna í laxeldi og gervilima.
Bás Breiðdalsseturs og ÞNA hlaut mjög góðar viðtökur. Fyrir söguhlutann héngu uppi myndir af gamla kaupfélaginu, göngukort af Breiðdalnum og innpökkunarpappír frá Sambandinu. Auk þess lágu gamlir skautar þar á borði, byggðasagan Breiðdæla og mikið af myndum úr Breiðdalnum. Í málvísindahlutanum var auðvitað gerður grein fyrir Dr. Stefáni Einarssyni, málvísindamanni og Breiðdæling, og hans rannsóknarefnum. Þar voru einnig heyrnartól með upptökum Stefáns á Gísla í Brekkuborg frá árinu 1954, en hann á að hafa talað hina fallegustu "breiðdælsku". Aðal áhugaefni yngri kynslóðarinnar var þó smásjá og þunnsneiðar bergs, en með smásjánni mátti sjá samsetningu bergsins. Þar lágu líka ýmis bergsýni sem sýndu hvernig berggerð breytist með auknu kísilsýrumagni (basalt er kísilsýrusnautt en líparít -ríkt) og storknunarhraða (kornastærð eykst eftir því sem kvikan hefur lengri tíma til að storkna). Þarna var einnig gert grein fyrir rannsóknum Dr. Walkers jarðfræðings.
- Created on .
- Hits: 2045