Skip to main content

Minning

 

GSH InPixioFallin er frá Guðrún Sigríður Haraldsdóttir  myndlistarkona og leikmynda- og búningahöfundur. Hún  starfaði við leikhús, kvikmyndir og sjónvarp á Íslandi, Englandi og í Danmörku um árabil.

Guðrún Sigríður átti stóran þátt í uppsetningu sýninga í Breiðdalssetri  við stofnun þess og á fyrstu árum starfseminnar. Hún sá um heildarhönnun á allri uppbyggingu Breiðdalsseturs og lagði drög að þeim sýningum sem enn eru uppi og fjalla um tvær að stoðum Breiðdalsseturs, enska jarðfræðinginn George P. Walker og dr. Stefán Einarsson prófessor og málvísindamann frá Höskuldsstöðum í Breiðdal. Þriðja grunnstoðin fjallar svo um samfélagið í Breiðdal

Skipulag þessara sýninga sem hvor um sig er í sérstökum minningarstofum a efri hæð Breiðdalsseturs  er í samræmi við hugmyndir Guðrúnar Sigríðar um mikilvægi heildarmyndar safnsins og skiptingu í 3 meginhluta. Svo mun verða um ókomna framtíð, þar sést einstök smekkvísi og listfengi hennar vel.

Hún skipulagði  einnig fleiri sýningar, 2009 sýninguna „Þær saumuðu þegar amma var ung“  og árið 2012 setti hún upp glæsilega samfélagssýningu, Bernskublíð Breiðdalsvík, sem fjallar um sögu Breiðdalsvíkur.

Gunna Sigga eins og hún var kölluð var bæði listfeng og hugmyndarík og féll vel inn í umhverfið á Breiðdalsvík þegar verið var að byrja að móta starfssemina í Gamla kaupfélaginu sem síðar varð Breiðdalssetur. 

Hún var sjálf með skemmtilega sýningu vorið 2009 þar sem hún notaði gamlar myndir úr safni Stefáns Einarssonar.  Sýninguna kallaði hún Fortíðar flögur, og síðan fór hún með þá sýningu út og setti upp London, þar sem hún starfaði að list sinni í áratugi.

 Gunna Sigga  náði góðum tengslum við fólkið í Breiðdal og virkjaði það með sér í tengslum  við samfélagssýninguna Bernskublíð Breiðdalsvík. 

Að leiðarlokum þakkar stjórn Breiðdalsseturs Guðrúnu Sigríði Haraldsdóttur ómetanlegt framlag við uppbyggingu menningar- og fræðaseturs á Breiðdalsvík.  Þar munu verk hennar lifa um ókomna framtíð. Sárt er að sjá á eftir þessari hæfileikaríku konu á besta aldri, en minning hennar mun lifa m.a. í sýningum í Breiðdalssetri.

Syni Guðrúnar Sigríðar og öðrum ástvinum eru færðar samúðarkveðjur.

F.h. stjórnar Breiðdalsseturs

Hákon Hansson

 

  • Created on .
  • Hits: 3037