Dagskrá málþings 8. júní 2013 komin
13.00 Vésteinn Ólason setur málþingið og segir stuttlega frá starfsemi Breiðdalsseturs og Stefáni Einarssyni.
13.10 Aðalsteinn Hákonarson doktorsnemi við H.Í.
13.40 Umræður um erindi Aðalsteins
13.50 Svavar Sigmundsson, fyrrv. forstöðumaður Örnefnast.
14.20 Umræður um erindi Svavars
14.30 Gunnlaugur Ingólfsson rannsóknadósent, Stofnun Á.M.
15.00 Umræður um erindi Gunnlaugs
15.10 Kaffihlé
15.25 Kristján Árnason prófessor H.Í.
15.55 Umræður um erindi Kristjáns
16.05. Margrét Jónsdóttir prófessor H.Í.
16.35 Umræður um erindi Margrétar
16.45 Kaffihlé
17.00 Guðrún Kvaran prófessor HÍ og Stofnun Á. M.
17.30 Umræður um erindi Guðrúnar
17.40 Ragnar Ingi Aðalsteinsson aðjúnkt H.Í.
18.10 Umræðum um erindi Ragnars Inga og almennar umræður
18.30 Málþingi slitið
Útdrættir úr fyrirlestrum:
Aðalsteinn Hákonarson
Hvernig vann hljóðfræðingurinn Stefán Einarsson?
Viðfangsefni hljóðfræði er tal. Það er athöfn sem meðal annars felur í sér myndun og skynjun málhljóða sem berast um efnislegan miðil. En þrátt fyrir að tal sé allt í kringum okkur hversdagslega er erfitt að koma böndum á það. Talfærin eru að mestu úr augsýn og mynda málhljóð sem hverfa jafnóðum. Eins og gefur að skilja torveldar þetta söfnun gagna sem eru grundvöllur rannsókna.
Í fyrirlestrinum verður þetta vandamál, eða kannski frekar áskorun, hljóðfræðinnar höfð til hliðsjónar. Í forgrunni verður doktorsritgerð Stefáns Einarssonar frá 1927, Beiträge zur Phonetik der Isländischen Sprache: mit 3 Tafeln (Framlag til hljóðfræði íslenskrar tungu: með 3 skýringarmyndum) og verður sjónum einkum beint að aðferðum hans við gagnaöflun sem endurspeglast einmitt í skýringarmyndunum þremur.
Guðrún Kvaran
Gamlar og nýjar athuganir á orðaforða á austanverðu landinu
Íslenskur orðaforði er afar heillandi viðfangsefni. Margt hefur verið skrifað og ýmislegt skráð en enn bíður mikið efni frekari rannsókna. Í erindinu verður fjallað um athuganir fjögurra manna, þeirra Rasmusar Kristjáns Rask málfræðings, Þorvalds Thoroddsen náttúrufræðings, Björns M. Ólsen málfræðings og Hallgríms Scheving kennara í Bessastaðaskóla og síðar Lærða skólanum. Allir skráðu þeir hjá sér orðafar sem þeir tengdu Austurlandi. Rasmus Rask og Þorvaldur hripuðu hjá sér það sem þeir heyrðu og þekktu ekki áður en söfnuðu ekki skipulega. Bæði Björn og Hallgrímur unnu að orðabókarverkum og þeirra söfnun var skipulegri þótt hvorugum tækist að ljúka fyrirætlunum sínum. Dæmin, sem þessir menn skráðu hjá sér, eru mörg athyglisverð og verða þau borin að talmálssafni Orðabókar Háskólans. Orðabókin safnaði um áratuga skeið staðbundnum orðaforða með ómetanlegri hjálp heimildarmann um allt land og nýtist safnið vel við samanburðarrannsóknir.
Gunnlaugur Ingólfsson
Áttatáknanir í Múlaþingi
Áttatáknanir eru með mismunandi móti frá einum landsfjórðungi til annars á Íslandi. Í erindinu verða í upphafi nefnd nokkur dæmi þessa, en síðan verður farið í stórum dráttum yfir áttatáknanir á Austfjörðum og Héraði og stuðst í því efni við ritgerðir Stefáns Einarssonar. Drepið verður á hugmyndir hans um sérstöðu og uppruna hinna austfirsku áttatáknana, svo og túlkun Einars Haugen á þeim efnivið sem Stefán Einarsson dró saman og birti um þetta. Að síðustu verða dregnar fram elstu heimildir sem ég hef fundið og sýna, að mínum dómi, hið sama áttatáknunarkerfi og gilt hefur á Austurlandi til okkar daga.
Svavar Sigmundsson
Austfirsk örnefni
Skoðuð verða austfirsk örnefni og sérkenni þeirra með söfn Stefáns Einarssonar að leiðarljósi. Stefán skildi eftir sig ýmsar samantektir og athuganir á örnefnunum í Múlasýslum og Austur-Skaftafellssýslum sem ástæða væri til að fjalla sérstaklega um. Í tengslum við það mætti ræða hvernig áframhaldandi staðsetning örnefna á Austurlandi á skráningartæki Landmælinga Íslands gæti farið fram skipulega og e.t.v. á forræði Stefánsstofu á Breiðdalsvík.
Margrét Jónsdóttir
Er þetta austfirska?
Í fyrirlestrinum ætla ég að beina sjónum að nokkrum orðum og orðatiltækjum. Þetta eru orðin fyrirdiskur og seli og orðatiltækin gera e-ð fyrir hálft orð og geta ekki gert sér augun/eyrun ónýt. Þetta var daglegt mál í uppvexti mínum eystra. Mörgum er þetta hins vegar ókunnugt eða framandi.
Ég skoða heimildir um notkun þessara orða og sambanda. Í því ljósi geri ég grein fyrir því hvort og þá hvaða ályktanir má draga af dreifingu þeirra eftir landshlutum. Ég vil þó taka það fram að mér er alls ekki áfram um að telja áðurnefnd orð og orðatiltæki sérstaka austfirsku.
Kristján Árnason
Um austfirsku
Stefán Einarsson ritaði fróðlegar greinar um málfar og framburð á Austfjörðum og Fljótsdalshéraði. Ég hyggst vitna til þeirra í máli mínu og í því sambandi leiða hugann að hugmyndum manna fyrr og síðar um austfirsku sem sérstakt málbrigði eða mállýsku. Séð frá Reykjavík kunna Austfirðir að virðast afskekktir, en frá Evrópu séð er það Reykjavík sem er lengst í burtu; samskipti við útlönd hafa e.t.v. verið meiri á Austfjörðum en í öðrum landshlutum. Ég mun ræða almennt um það sem talið hefur verið einkenna mál (ekki síst framburð) Austfirðinga með dæmum úr eldri og yngri rannsóknum.
Ragnar Ingi Aðalsteinsson
Að yrkja á austfirsku
Flámæli kallast það þegar hálfnálægu sérhljóðin i og u fjarlægjast eða tvíhljóðast og verða að einhvers konar „hvarflandi“ tvíhljóðum (sjá Kristján Árnason 2005:254-6 o.v.). Orðið litur verður lietur eða letur og orðið fluga verður fluöga eða flöga. Þessi framburður hefur sem kunnugt er gjarnan verið tengdur okkur Austfirðingum þó að hans hafi vissulega oft orðið vart í öðrum landshlutum. Um þetta má meðal annars lesa í fróðlegum greinum eftir Stefán Einarsson.
Eins og gefur að skilja verður þessa nokkuð vart í bragfræðinni og þá helst í þeim þáttum sem snúa að ríminu. Hafi menn tileinkað sér þennan framburð opnast ýmsar nýjar leiðir, til dæmis að ríma orðið litur við betur og orðið flugu við sögu. Ég mun í spjalli mínu rifja upp og líta á nokkur dæmi þar sem Austfirskir hagyrðingar nýta sér þessa möguleika og víkka rímið út samkvæmt þessari málvenju.
- Created on .
- Hits: 1934