Skip to main content

Dr. Stefán Einarsson - ævisaga

einarssonPrófessor Dr. Stefán Einarsson fæddist á Höskuldsstöðum í Breiðdal Suður - Múlasýslu 9. júní 1897. Foreldrar hans voru hjónin Einar Gunnlaugsson, bóndi og póstafgreiðslumaður, og Margrét Jónsdóttir. Að Höskuldsstöðum, þar sem Tóin gnæfir yfir há og tignarleg og fjallið á móti hinum megin við ána sem málverk gert úr marglitu líparítgrjóti, ólst Stefán upp.


Dr. Stefán gekk fyrst í Gagnfræðaskólann á Akureyri, en varð síðan stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1917. Að loknu stúdentsprófi fór Stefán í Háskóla Íslands og lauk meistaraprófi í íslenskum fræðum 1923-24. Stefán var veturinn 1924-25 í Helsinki og lagði stund á hljóðfræði. Um tíma árið 1925 var Stefán einnig við Cambridge í Englandi, en doktorsprófi lauk hann í Ósló árið 1927 og var doktorsritgerð hans um hljóðfræði í íslensku. (Stefán Einarsson, Beiträge zur Phonetik der isländischen Sprache. Oslo 1927.)

Sama ár og Stefán lauk námi fékk hann prófessorstöðu við John Hopkins háskólann í Baltimore. Þar starfaði Stefán síðan alla sína starfsævi, eða þar til að hann lét af störfum fyrir aldurs sakir árið 1962. Stefán starfaði aðallega við enskudeild skólans og þá sem kennari í norrænni og enskri (einkum fornenskri) málfræði. Sama ár og Stefán lét af störfum fluttist hann til Íslands og bjó í Reykjavík þar til að hann lést 9. apríl 1972.

Dr. Stefán Einarsson var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Margarete Schwarzenburg frá Eistlandi, en hún var sagnfræðingur að mennt. Þeim varð ekki barna auðið, en Margarete lést árið 1953 og kaus hún dufteski sínu dvalarstað í heimilisgrafreitnum á æskuheimili Stefáns, Höskuldsstöðum. Segir það meira en nokkur orð um hug hennar til Stefáns og uppruna hans.

Síðari kona Stefáns var Ingibjörg Einarsdóttir frá Njarðvíkum, sem átti síðan eftir að reynast Stefáni sérstaklega vel eftir að hann missti heilsuna síðustu árin.

Stefán var um árabil ræðismaður Íslands í Baltimore og varðveitt eru skipunarbréf hans, undirrituð m.a. af F. D. Roosevelt og H. S. Truman, Sveini Björnssyni og Ólafi Thors. Stefán naut mikillar virðingar meðal fræðimanna og má nefna að hann var að Vilhjálmi Stefánssyni einum undanskildum fystur Íslendinga til þess að vera kjörinn í eitt virðulegasta fræða- og vísindafélag Bandaríkjamanna, The American Philosophical Society.

Þessum helstu þáttum úr ævi dr. Stefáns er viðeigandi að ljúka með orðum Vilhjálms Þ. Gíslasonar er hann skrifaði í minningargrein um dr. Stefán:

"Dr. Stefán Einarsson var tvennt um ævina, og hvorttveggja af lífi og sál og með heiðri og sóma. Hann var austfirskur sveitamaður og amerískur prófessor. Hann vann rannsóknir sínar og stundaði háskólakennslu sína vandlega á amerískan nýtísku máta, en í honum var einnig mikið af safnara og grúskara á gamla og góða austfirska vísu."

  • Created on .
  • Hits: 2231